Líkur á miklu birkifrjói sumarið 2020?

Birki (Betula pubescens) vex um allt land og er eina innlenda trjátegundin sem myndar samfellda skóga. Hæst vex birkið yfir sjávarmáli á Íslandi í rúmlega 550 m hæð t.d. í Stórahvammi fremst í Austurdal í Skagafirði og í Fljótsgili við Skjálfandafljót.

Blómin á birkinu eru einkynja og eru í reklum. Birki hefur sumsé bæði karlrekla og kvenrekla. Reklanrnir þroskast á haustin og eru uppréttir karlreklarnir vel sýnilegir á birki bæði á haustin og á vorin. Frjótíminn birkisins hefst að jafnaði í maí en fer nokkuð eftir landshlutum og tíðarfari. Frjótímabilið stendur oftast yfir í 2 – 3 vikur og er háð úrkomu, veðri og vindum.

Um þessar mundir má sjá óvenju mikinn fjölda karlrekla á birkitrjám á höfðuborgarsvæðinu og getur það verið vísbending um að óvenjumikið verði um birkifrjó í byrjun sumars. Kenningin er því sú að ef veður helst þurrt og hlýtt með hægum vindi megi spá óvenju miklu magni birkifrjóa.

Mikið frjómagn getur leitt af sér mikla og góða frjóvgun og mikla og góða uppskeru á birkifræi í haust. Fræið sjálft eða aldin birkisins er lítil vængjuð hneta sem borist getur langar vegalengdir eins og náttúruleg útbreiðslu birkis á Skeiðarársandi ber glöggt vitni um.

Birkifrjó geta verið skæður ofnæmisvaldur hér á landi, en ekki síður á Norðurlöndunum þar sem vaxa víðáttumiklir birkiskógar. Auk birkifrjósins eru á Íslandi einkum tvær gerðir frjókorna sem koma af stað ofnæmi en það eru grasfrjó og súrufrjó.

Frjóofnæmi er mjög algengt vandamál sem fer vaxandi hjá ungmennum fram að tvítugsaldri en dregur úr eftir tvítugt. Sjaldgæft að fólk fái einkenni frjóofnæmis í fyrsta sinn eftir fertugt. Samkvæmt niðurstöðum úr íslenskri rannsókn sýnir u.þ.b. 4% fólks næmi fyrir trjám.

Slagviðri getur þó sett strik í reikninginn og dregið úr frjómagni í lofti og hamlað fræuppskeru. Sveppir og mygla geta herjað á rekla birkisins þegar þeir taka að þroskast.

Birkihnúðmý (Semudobia betulina) getur líka herjað á fræið en birkihnúðmý er fluga sem verpir í nýmyndaða kvenrekla birkisins og lirfur flugunnar nærast á fræhvítu fræsins. Lirfurnar ná fullum þroska á haustin og púpa sig að vori. Sýkt fræ er bólgið og vængir þess vanskapaðir og smáir. Varnaraðgerðir vegna óværunnar eru ekki viðhafðar.

Birkifeti, (Rheumaptera hastata) birkiþéla, (Scolioneura betuleti) birkikemba (Heringocrania unimaculella) og birkiryðsvepur (Melampsoridium betulinum) geta líka herjað á birkið og hamlað vexti og fræmyndun. En einnig tígulvefari (Epinotia solandriana), haustfeti (Operophtera brumata) og birkivefari (Acleris notana).

Steinn Kárason garðyrkjufræðingur og M.Sc. í umhverfisfræðum.

Líkur á miklu birkifrjói sumarið 2020?
Scroll to top